Æfingahelgi í snjóflóðaleit

Helgina 11. – 13. janúar hélt BHSÍ æfingahelgi í snjófjóðaleit á Snæfellsjökli. Gist var á Gufuskálum.

Þátttakendur voru all um 45 talsins og voru þar á meðal fjölmargir til aðstoðar, en hundateymin voru 32. Fólk kom víða að af landinu, en við fengum sérstaka hjálp frá unglingum frá Grindavík og Eyrarbakka. Að auki höfum við fasta „fígúranta“ en svo nefnast þeir sem leika hina týndu og láta grafa sig í fönn. Er þetta fólk, sem oftar en ekki eru krakkar, ómetanleg hjálp við þjálfun hundanna.

Þeir fyrstu mættu á fimmtudagskvöldið og æfðu á föstudaginn, en flestir mættu á föstudeginum, og æft var á laugardeginum og sunnudeginum. Farið var á svæði kl. 9 á morgnana og æft fram í myrkur. Svæðin voru fjögur og leiðbeinendur voru: Ingimundur, Þórir, Halldór og Auður og leiðbeinendanemar voru þeir Kristinn, Maurice og Gunnar.

Hundarnir voru á öllum stigum þjálfunar, allt frá hundum sem eru að stíga sín fyrstu spor í þjálfuninni og upp í gamalreynda A-hunda jaxla. Æft var Ólafsvíkurmegin og farið upp Jökulhálsinn og keyrt eins langt upp og þurfti til að finna nægan snjó til að æfa í. Færið var gott til að keyra, en erfiðara að moka holurnar vegna klaka. Veðrið var mjög gott, bjart en nokkuð kalt. Æfingarnar gengu vel og tóku nokkrir C-próf. Næsta æfingahelgi verður um miðjan febrúar og förum við aftur á Snæfellsnesið, enda frábær staður til æfinga, hvort sem er að vetri til eða sumri.