25 ára afmæli sveitarinnar

Í tilefni af 25. ára afmæli sveitarinnar var haldið afmælisboð síðasta laugardag frá klukkan 18-21 í skólaskipinu Sæbjörgu.

Margt var um manninn og góðar veitingar í boði. Veislustjóri var Þórir Sigurhansson. Mikið var um ræðuhöld og frásagnir um nýja og gamla tíma og var gaman að heyra sögur frá gömlum félögum og var þar á meðal einstaklega skemmtilegur upplestur frá fyrstu stjórnarfundum BHSÍ fyrir 25 árum. Það var Sólveig Smith sem hafði í fórum sínum fyrstu fundargerðarbók sveitarinnar og afhenti hún núverandi formanni hana til varðveislu eftir upplesturinn.

Jón Gunnarsson framkvæmdarstjóri SL steig í pontu sem og Lilja Magnúsdóttir ritari stjórnar SL. Einnig formaður og gjaldkeri HSG. Eftir ræðuhöldin var tekið við að heiðra gamlan félaga sveitarinnar og að þessu sinni var það ekki manneskja, heldur ferfætlingurinn hann Þengill sem var tekinn í heiðurstölu BHSÍ. En Þengill hefur sinnt skyldum sínum sem útkallshundur í fjölmörg ár og fór síðast í útkall núna í haust orðinn 11 ára gamall. Þengill er einnig eini hundurinn á landinu sem hefur fengið einhverja þjálfun í vatnaleit. Það var eigandi Þengils, Þórir Sigurhansson sem tók við heiðursskildinum en að sjálfsögðu var Þengill sjálfur viðstaddur líka en hafði frekar lítið um málið að segja.

Eftir þessa athöfn kom félagi okkar frá Patreksfirði, Þröstur G. Reynisson og skemmti okkur með atriði sem hann hafði sett saman gagngert fyrir afmælið og fór hann á kostum eins og honum einum er lagið. Eftir hefðbundna dagsskrá tók svo við spjall og áframhaldandi gaman. BHSÍ vill þakka velvild og hlýju í garð sveitarinnar á þessum tímamótum.