Annað sumarnámskeið BHSÍ

Annað sumarnámskeið BHSÍ var haldið dagana 17.-19. júni á Suðurlandi að þessu sinni, nánar tiltekið á Hellisheiðarsvæðinu. Þáttaka var frekar dræm, en 14 teymi mættu. Námsskeiðsstjóri var Skúli Berg, leiðbeinandi var Ingimundur Magnússon og leiðbeinandanemi var Kristinn Guðjónsson.

Fyrsta daginn vorum við á Hellisheiði, við Litla Skarðsmýrarfjall. Veðrið var frekar kuldalegt, vindur og smá úrkoma. Seinni dagana tvo færðum við okkur neðar og vorum við Hellisheiðarvirkjun í blíðskaparveðri. Ágæt truflun var í svæðunum, því þarna voru bændur að sleppa fé á fjall og ferðamenn í gönguferðum. Ágæt æfing það. Landslagið var gott til æfinga, hlíðar og gil.

Hópnum var skipt í tvennt við æfingar, unghundarnir æfðir sér og þeir sem lengra voru komnir tóku góðar leitir á stóru svæði. Útlínur svæðisins (hornpunktar) voru slegnir inn í GPS, svo allt færi þetta fram eftir bókinni.
Vel gekk líka með unghundana og eigum við von á góðum einstaklingum á útkallslista á næstu árum, ef fram fer sem horfir.

Tvö teymi stóðust próf að þessu sinni, en það voru þeir Nikulás Hall með Skessu, sem tóku A-próf og Skúli Berg og Patton, en þeir tóku A-endurmat.

Grillað var á laugardeginum í sól og blíðu, en ekki fengu allir að njóta þess, því hluti af hópnum þurfti að sinna útkalli, þar sem leitað var að manni sunnan við Heklu.

Þetta var fámennt en góðmennt námskeið og feiknargóð æfing fyrir alla.

Sjáumst bara sem flest á næsta námskeiði í ágúst.