Félagar úr BHSÍ sóttu 6. landsþing SL á Akureyri

Þrír félagar BHSÍ sóttu 6. landsþing Slysavarnarfélagsins Landsbjargar (SL) á Akureyri fyrir hönd Björgunarhundasveitar Íslands (BHSÍ) á síðustu helgi.
Auk þessara þriggja félaga, þeirra Auðar, Hafdísar og Ingibjargar voru á svæði átta aðrir félagar úr BHSÍ, Jói á Hæl fyrir Ok, Guðbergur fyrir Garðar Húsavík, Hlynur fyrir skátana í Reykjadalnum, Bríet og Smári fyrir Blakk, Dóri fyrir Suðurnesjasveitina, Skúli fyrir Björgunarfélag Ísafjarðar og Rakel sem tók þátt í björgunarleikunum með „Team Smurfs“.

Einstaklega gott veður var á Akureyri þessa helgi og góð sátt um flest málefni á þinginu. Félagar úr BHSÍ héldu hópinn á þinginu og sáust á spjallinu við félaga úr Leitarhundum.

Umræðuhópar á þinginu voru margvíslegir en fyrir félaga í BHSÍ var umræðuhópur um svæðisstjórnir og aðgerðir áhugaverðastur og verður gaman að fylgjast með þróun þessara mála í framtíðinni.

Undir liðnum önnur mál vakti kynning á notkun hesta í leitum hvað mestan áhuga félaga í BHSÍ og hafa nokkrir félagar úr sveitinni mikinn áhuga á því að fylgjast með og taka þátt í þróun þess starfs.

Milli þingfunda var boðið upp á t.d. sveitaball á föstudagskvöldinu þar sem nokkrir SL-kappar léku fyrir dansi og á laugardeginum var árshátíð SL haldin og var sérlega gaman að sitja í þeim 600 manns hóp þegar fylgst var með stigagjöf í Euróvísjón og voru fagnaðarlætin slík að halda mátti að Jóhanna og Ísland hefðu unnið söngvakeppnina !!

Ný stjórn SL var kjörin á þinginu og vill BHSÍ óska þeim fulltrúum okkar til hamingju með stjórnarkjörið.

Siðareglur SL voru kynntar á þinginu og eru allir félagar innan BHSÍ hvattir til að kynna sér þær á heimasíðu SL.