Fimmta sumarnámskeiðið

Síðasta námskeið þessa sumars var haldið í Bláfjöllum síðustu helgi (12. – 14. okt.) Ellefu teymi tóku þátt og voru leiðbeinendur þeir Ingimundur og Snorri.

Veðrið var með ýmsu móti, fengum sól og vind, rok og rigningu, og í heildina var frekar kalt.  Aðstæður til leitar voru fínar, landslag mismunandi, hraun og fjallshlíðar, og gott fyrir yngri teymin að reyna sig við mismunandi aðstæður.

Fjórir náðu prófi þessa helgi, en það voru þau Hallgerður Kata með Golu sem tóku C-próf, Snædís og Úlfur tóku B-próf, og gömlu refirnir þeir Krissi með Tásu og Dóri með Skugga tóku A-endurmat.

Erum við sérstaklega ánægð með yngri teymin sem lofa mjög góðu.  Þar er á ferðinni duglegt fólk sem hefur lagt mikla vinnu í að þjálfa hundana sína og er alltaf tilbúið til að aðstoða aðra við þjálfunina.

Æfingar og próf hafa gengið vel í sumar og höfum við fengið nokkra nýja B-hunda á útkallslista. Er það mjög gott í ljósi þess að undanfarin tvö ár höfum við misst nokkra góða hunda af útkallslista, ýmist vegna elli eða veikinda. Nú síðast hana Gæsku sem dó úr hjartabilun á september námskeiðinu. Er þetta mikill missir fyrir sveitina.

Nú er bara að halda áfram að æfa og ætlum við að halda áfram með víðavangsleitina og bæta við rústaleit fram að snjóflóðaæfingum. Síðan verðum við með útkallsæfingu (eina eða fleiri) og vonandi getum við fljótlega verið með eina á Hæli í Flókadal.

Við óskum teymunum sem náðu prófi hjartanlega til hamingju með árangurinn.