Fyrirlestrar á vegum sveitarinnar

Við höfum verið dugleg að halda allskonar fyrirlestra á miðvikudagskvöldum í vetur. Síðustu tveir fyrirlestrar voru í höndum Ingimundar.

Fyrri fyrirlesturinn fjallaði um hundaþjálfun og fór Ingimundur fyrst yfir sinn feril sem hundamaður og þjálfari, síðan tók hann fyrir skeiðin í lífi hundsins, hvatir hans og hvernig hundurinn nýtist í björgun á fólki og hvernig við þjálfum þá upp.

Síðari fyrirlesturinn var svo haldinn í gærkveldi í húsi Landsbjargar og fjallaði Ingimundur þá um útköll. Fjallaði hann almennt um hvað þarf að hafa í huga þegar í útköll er farið, hvernig ferli fer í gang þegar fólk er kallað út og þar til það byrjar að leita, útbúnað, leitarsvæði, vind og landslag, líðan hundsins í útkalli er varðar þá þreytu og það að hafa ávallt vatn fyrir hundinn þegar við á, að fólk geti lesið hundinn sinn þannig að það viti hvenær er þörf á að stoppa og hvíla hundinn.

Sem sagt útköllin tekin fyrir frá A til Ö. Þó nokkuð er um C teymi í sveitinni núna sem stefna óðar á að ná B á næsta ári og komast þeir sem ná prófum á útkallslista í eitt ár. Eru þeir þá kallaðir út ef mikil vöntun er á hundum og A hundateymi komast ekki. Því er gott fyrir þessa aðila að fá góða fræðslu svo þeir viti í hvað stefnir þegar kemur loksins að útkalli.