Hundur mánaðarins – Keano

Hundur mánaðarins að þessu sinni er hann Keano sem býr á Patreksfirði ásamt honum Jónasi. Gefum honum orðið 🙂

Keano er 5 ára gamall Border Collie frá Fremri-Gufudal í Reykhólasveit. Þegar ég valdi Keano voru aðeins tveir hvolpar eftir úr 10 hvolpa goti. Ég gerði nokkur próf á báðum hvolpunum sem eftir voru til að athuga hvor hentaði betur sem björgunarhundur. Í prófunum hékk Keano útí horni og vildi ekkert við mig tala á meðan hinn var hrókur alls fagnaðar og stóð sig eins og hetja. En það var bara eitthvað svo sætt og ljúft við þennan litla ræfilshvolp sem gerði það að verkum að ég varð að velja hann. Keano varð fyrir valinu þvert á allar ráðleggingar og gegn betri vitund en þetta er sennilega með betri ákvörðunum sem ég hef tekið um ævina því betri hund er vart hægt að hugsa sér.

Hann er fljótur að læra, hvort sem ég er að kenna honum eða ekki og hann elskar að vera í bílnum. Ef hann fengi að ráða ættum við heima í húsbíl. Hann er þó ekki gallalaus því hann er mjög lofthræddur (fjallageitinni mér til mikilla ama) og höfum við glímt við marga stiga, tröppur og háa bíla í gegnum tíðina. Keano er með A gráðu í snjóflóðaleit og stefnum við á að ná C gráðu í víðavangsleit í sumar.