Leit á Langjökli 19. september

„Hundar BHSÍ fundu flak geimskipsins – Einn fannst á lífi og ómeiddur.“

Björgunarsveitir voru kallaðar út eftir að tilkynnt hafði verið um ljósagang á Langjökli. Um klukkan 15:00 fundu svo hundar BHSÍ flak geimskips sem hafði brotlent á jöklinum. Einn var um borð og fannst hann á lífi og ómeiddur. Til aðstoðar fóru einnig björgunarsveitarmenn frá Björgunarsveitinni Suðurnes og Björgunarsveitinni OK.

Kvikmyndatökulið á vegum RÚV voru við vinnu á jöklinum og kvikmynduðu björgunina. Veran var flutt til Reykjavíkur til aðhlynningar. Verið er að vinna að sjónvarpsþáttum um Geimálfinn frá Varslys en Slysavarnafélagið Landsbjörg lét útbúa námsefni í áróðursskyni vegna slysa. Við gerð þáttanna sem sýndir verða á RÚV í vetur er stuðst við námsefnið. Það sem tekið var upp á Langjökli er upphafsatriði þáttanna en þá brotlendir Gígur geimálfur á jöklinum.

Slysavarnasvið Slysavarnafélagsins Landsbjargar vill koma á framfæri þakklæti til Björgunarsveitarinnar Suðurnes, Björgunarsveitarinnar OK og Björgunarhundasveitar Íslands fyrir skjót viðbrögð um að taka þátt í þessu verkefni og framúrskarandi framkvæmdargleði.

(Fréttin er tekin af vef Landsbjargar).