Leit að erlendum ferðamanni

Víðtæk leit stendur nú yfir að spænskum ferðamanni sem í gærmorgun hélt frá skálanum í Hrafntinnuskeri áleiðis að Álftavatni þar sem hann átti pantaða gistingu í nótt.

Þangað hafði hann ekki skilað sér. Leitarmenn frá Hellu og Hvolsvelli hafa leitað á svæðinu í nótt ásamt hundateymum og voru björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu einnig kallaðir út.

Leitarsvæðið er nokkuð stórt og að hluta seinfarið. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig maðurinn er útbúin og hann virðist vera einn á ferð. Um 100 björgunarmenn eru nú að störfum ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hundateymin voru kölluð út klukkan 22.40 í gærkveldi og eru 3 teymi frá BHSÍ á staðnum að leita ásamt teymum frá Leitarhundum.