Leit með björgunarhundum kynnt fyrir svæðisstjórn á svæði 17

Eftir nokkur stór útköll síðastliðið sumar, bað svæðisstjórn á svæði
17 um kynningu á leit með björgunarhundum. Var þessari beiðni tekið fagnandi hjá Björgunarhundasveit Íslands (BHSÍ) og Leitarhundum
SL, enda mjög ánægjulegt þegar svæðisstjórnir vilja læra meira um
hundamálin.

Var ákveðið að hittast einn sunnudagsmorgun síðast í nóvember. Allir mættu í hús Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu og þar hélt Þórir Sigurhansson (BHSÍ) fyrirlestur um leit með hundum, og útskýrði hann fyrir mönnum getu hundanna í vinnu, hvers þeir eru megnugir og hvar og hvernig þeir nýtast. Einnig fór hann yfir æfingaprógramm hundamanna og
útskýrði þjálfun björgunarhunda. Var aðeins komið inná snjóflóðaleit,
víðavangsleit, rústaleit, vatnaleit og spor.

Að fyrirlestri loknum var spurningum svarað og síðan fengu menn sér kaffi, áður en haldið var út á Gaddstaðafleti. (það má nú sýna fleira þar en kynbótahross!)

Þar tók á móti okkur týpískt sunnlenskt veður; rok og rigning. Sett var upp stutt æfing, þar sem tveir menn (fígúrantar) földu sig og fengu tveir hundanna að spreyta sig, þeir Frosti, með Ingimundi Magnússyni (BHSÍ) og Stelpa, með Helga Kjartanssyni (Leitarhundum). Fundu þau bæði fljótt og vel, enda ekki vandræði fyrir hundana að vera úti í sunnlenskri „blíðu“. Það er nefnilega þannig með hundamenn, að við frestum ALDREI æfingu, sama hvernig veðrið er.

Hundasveitirnar vilja þakka svæðisstjórn á svæði 17, og þá sérstaklega
þeim Sigurgeiri Guðmundssyni og Jóni Hermannssyni fyrir góða móttöku og áhuga þeirra á okkar starfi. Þetta var góður dagur og vonum við að menn séu nú einhvers vísari um hundavinnu.

Ákveðið var að reyna að taka saman æfingu í vetur í snjóflóðaleit upp á
jökli, og síðan kannski sameignilega æfingu þegar líður að vori. Það mættu fleiri svæðisstjórnir taka þessa menn sér til fyrirmyndar, við erum alltaf tilbúinn að koma og heimsækja sveitir.