Minning – Skotta 1997-2012

Skotta og Elín hittust fyrst á æfingu á Akureyri 1997. Þá var Skotta aðeins nokkurra mánaða gömul og var ekki hundurinn sem Elín ætlaði að skoða, heldur var eigandinn með aðra tík sem hann vildi láta hana hafa. Skotta var hins vegar ærslabelgur og sannfærði Tóta sem var með í ferðinni um að hún væri sú eina rétta.

Þær vinkonurnar tóku svo til við æfingar saman og sennilega er vandfundinn sá hundur sem hefur lagt sig eins fram um að þóknast eiganda sínum. Þrátt fyrir að vera alla tíð eins og gufurugluð þá var ótrúlega létt að kenna henni. Hún tók sitt fyrsta C-próf í snjóflóðaleit aðeins átta mánaða gömul sem gerði það að verkum að leiðbeinendur fóru að endurskoða reglur um aldur hunda í úttektum.

C-próf í víðavangsleit fylgdi í kjölfarið en eins og hjá svo mörgum þurfti nokkrar tilraunir við B-prófið en þegar því var náð var ekki aftur snúið og við tóku ár útkalla og úttekta, ótal námskeið og útköll þar sem Skotta stóð sig alltaf með prýði. Hún var alltaf jafn glöð og fús að vinna og svo hlýðin að hún hafði sérstaka undanþágu til að vera ekki í taum að og frá svæði. Um hana var ort:

Þarna kemur Skotta sem kann ekki að ganga í spotta.

Skotta var heiðruð af Hundaræktarfélagi Íslands árið 2007 sem þjónustuhundur ársins. Skottu verður lengi minnst og það er aðeins hægt að hugsa um hana með bros á vör, glaðværð hennar og ákafi í öllu sem hún tók sér fyrir hendur stendur uppúr.

Við sendum Elínu og Ingimundi samúðarkveðjur