Minning um Skolla 1999 – 2006

Sá sorglegi atburður átti sér stað sunnudaginn 19. mars á vetrarnámskeiði sveitarinnar að útkallshundurinn Skolli veiktist alvarlega og lést í kjölfarið á því. Um miðjan dag kom í ljós að Skolli var ekki heill heilsu og var þá farið með hann til dýralæknis á Hvolsvelli.

Þar var hann skoðaður og fékk að því loknu að fara aftur í Drangshlíð. Fljótlega kom þó í ljós að Skolli þyrfti frekari aðhlynningu og var þá ákveðið að keyra með hann til Garðabæjar í nánari skoðun. Þar var ákveðið að aðgerðar væri þörf en þrátt fyrir að allt væri gert, var ekki hægt að bjarga honum og lést hann skömmu eftir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 20.mars.

Skolli var í eigu Auðar Yngvadóttur frá Ísafirði og saman voru þau frábært teymi. Skolli og Auður náðu A gráðu í víðavangsleit árið 2002 og í snjóflóðaleit árið 2004. Saman fóru þau í fjölmörg útköll með góðum árangri og skiluðu sínu með miklum sóma. Hundurinn Skolli var skemmtilegur karakter og var hann þekktur innan sveitarinnar sem Selurinn. Þá nafnbót fékk hann vegna þess að hann átti það til að góla eins og selur frekar en að gelta eins og hundur. Hann var orkubolti eins og sannur Border Collie og ekki vantaði kraftinn og ákveðnina í þennan frábæra vinnuhund. Það er stórt skarð höggvið í raðir sveitarinnar og erum við öll fátækari eftir dauða Skolla okkar. Við félagar í BHSÍ sendum Auði okkar og hennar fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Minningin um góðan hund lifir.

Fyrir hönd BHSÍ Ragnheiður Hafsteinsdóttir og Elín Bergsdóttir