Pilturinn fundinn

Í gærkvöld lauk umfangsmikilli leit að Pétri Þorvarðarsyni frá Egilsstöðum.

Pétur fannst látinn við Langafell í Hauksstaðaheiði inn af Vopnafirði. Um kl. 20:52 barst tilkynning til lögreglunnar á Húsavík um að björgunarsveitarmenn hafi fundið lík Péturs Þorvarðarsonar. Það var leitarhundur sem vísaði á líkið, að því er segir í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Húsavík.

Leit að Pétri hefur staðið yfir sleitulítið frá því sunnudaginn 14. maí, en hans var saknað frá Grímsstöðum á Fjöllum aðfaranótt sunnudagsins. Í fyrstu beindist leitin að nágrenni Grímsstaða og vega út frá Grímsstöðum. Er leitin bar ekki árangur var leitarsvæðið stækkað og laugardaginn 22. maí fundust fótspor, ekki langt fá upptökum Selár í Vopnafirði, sem líklegt þótti að væru eftir hann.

Staður þessi er mjög langt frá alfaraleið. Mikill fjöldi björgunarsveitarmanna víðs vegar að af landinu hefur komið að leitinni. Þyrlur og leitarhundar hafa einnig verið notaðir við leitina. Lögreglustjórinn á Húsavík sem og Slysavarnafélagið Landsbjörg vilja þakka öllum þeim mikla fjölda fólks sem á einn eða annan hátt hefur aðstoðað við þessa umfangsmiklu leit.

Frétt tekin af mbl.is