Snjóflóðaæfing á Ísafirði 5. mars 2011 – kvöldæfing

Í gærkvöldi, laugardag, hélt Björgunarfélag Ísafjarðar snjóflóðaæfingu á Breiðadals- og Botnsheiði fyrir Hörð og Skvísu og Tóta og Jóku.

Farið var upp á svæðið um kl 21:00 á 3 vélsleðum. Með í för voru 2 félagar úr björgunarsveitinni Kofra í Súðavík. Veðrið var ekkert sérstakt, rigning og rok, en það breyttist í snjókomu og rok þegar upp var komið. Þegar leið á kvöldið lagaðist veðrið töluvert.

Við hittum Þröst, skipuleggjanda æfingarinnar, og gaf hann okkur upp 2 GPS punkta sem voru horn svæðisins. Búið var að merkja útlínur svæðisins með flöggum en þau sáust misvel sökum myrkurs og skyggnis. Stærð svæðisins var um 150 m x 250 m. Við ákváðum að leita svæðið samtímis með báðum hundunum en skiptum því upp gróflega í 2 hluta. Við vissum ekki fjölda týndra.

Tóti og Jóka fundu 1 fígúrant fljótlega eftir að leitin byrjaði en Hörður og Skvísa þurftu að leita töluvert lengur þar til Skvísa datt í lyktina af öðrum fígúrant. Í ljós kom að það voru aðeins 2 týndir. Í lokin var pakkað saman og ekið aftur niður af heiðinni. Komið var heim um kl. 23:30.

Skipuleggjendur æfingarinnar voru Þröstur, Teitur og Siggi frá BFí og er þeim þakkað kærlega fyrir aðstoðina og frábæra æfingu.
Því miður voru engar myndir teknar á æfingunni.