Snjˇflˇ­aleitarhundar

25 ár eru síðan hamfarasnjóflóð féllu á byggð í Súðavík og Flateyri. Sorg og skelfing hertóku íslensku þjóðina og fólk sat límt við viðtækin til að hlusta á fréttir af þeim hetjulegu björgunarafrekum sem unnin voru í afar erfiðum aðstæðum í fárviðri, myrkri og kulda.

Snjóflóðaleitarhundar, mannafli, tæki og tól voru flutt með skipum í aftakaveðri til að koma bæjarbúum til hjálpar og auka mannskapur og hundar fluttur sjóleiðis um langan veg. Allt landið lagðist á eitt til að hjálpa og ljóst er að samtakamátturinn var mikill meðal björgunarmanna.

Þar sýndu hundarnir enn og aftur hvers þeir eru megnugir og hversu dýrmætar bjargir þeir eru við slíkar aðstæður. Snjóflóðin voru gífulaga stór og brak og rústir húsa og mannvirkja gerðu hefbundna leit með snjóflóðastöngum nær ómögulega. Þeir hundar sem þar störfuðu og eru fyrir löngu farnir yfir móðuna miklu, áttu stóran þátt í þeirri mannbjörg sem þar varð. Þeirra verður alltaf minnst af alúð og virðingu.

Í kjölfarið af flóðunum varð mikil vakning og aukinn áhugi á notkun hunda í leit. Með tímanum hefur þó dregið úr þeim áhuga og er nú komin upp sú staða að þeir sem standa að þjálfun snjóflóðahunda þ.e. Björgunarhundasveit Íslands og Leitarhundar SL hafa lýst yfir áhyggjum sínum af skorti þeirra á landsbyggðinni. Þar þarf að lyfta grettistaki og tryggja það að hundar séu til staðar í þeim byggðum sem eru staðsettar á þekktum snjóflóðahættusvæðum. Í snjóflóðum skiptir tíminn mestu máli og getur skilið milli lífs og dauða. Það er því umhugsunarvert að flytja þurfi hunda landshorna á milli þar sem hver mínúta skiptir sköpum.

Í ljósi atburða síðustu daga erum við enn og aftur minnt á hvað íslensk náttúra hefur upp á að bjóða með vályndum veðrum og þeim hættum sem skapast við slíkar aðstæður.
Að þjálfa snjóflóðaleitarhunda er þrotlaus vinna sem krefst mikils af bæði mönnum og hundum. Björgunarstarf er í eðli sínu óeigingjörn vinna sem miðar að því að vera til staðar þegar neyðin er mest, með þá þekkingu, reynslu og tækni sem þarf til að bjarga mannslífum og verðmætum.

Einkunarorð Björgunarhundasveitar Íslands "Hundar í þína þágu" lýsa starfsemi okkar vel þar sem við leggjum mikla áherslu á að þjálfa hunda og mannskap til að sinna þeim verkum sem okkur eru falin af fagmennsku og alúð.
Með þessum orðum viljum við hvetja alla þá sem hafa áhuga á að starfa á þessum vettvangi að kynna sér starfið og hafa samband. Við tökum vel á móti áhugasömum einstaklingum og efnilegum hundum sem eru viljugir til að starfa við björgunarstörf.

Að lokum langar okkur til að hvetja félaga okkar í björgunarsveitum SL til að vera vakandi fyrir einstaklingum sem langar að hefja þessa vegferð með hundinum sínum og styðja þá í að taka þau skref sem taka þarf á þeirri leið.
Meðfylgjandi viðtal við Hermann Þorsteinsson lýsir vel hvernig hundar virka í þeim aðstæðum sem voru til staðar í Súðavík og Flateyri. Hermann starfaði bæði með Björgunarhundasveit Íslands og Leitarhundum SL og hefur mikla reynslu á þessu sviði. Við sem þekktum hundinn hans, Mikka, minnumst hans með hlýju sem og þeirra ferfættu vina okkar sem hafa kvatt þennan heim.

https://timarit.is/files/12181406…