Styrkur til kaupa á hundi

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt 50.000 króna styrkveitingu vegna kaupa á hundi sem þjálfaður verður til leitar og björgunar. Styrkinn fær Auður Yngvadóttir á Ísafirði sem hefur verið virkur félagi í Björgunarhundasveit Íslands til margra ára og starfaði áður með björgunarhundinum Skolla.

Skolli var af Border Collie kyni og var þjálfaður til leitar að týndu fólki. Hann var með svokallaða A gráðu í bæði víðavangs- og snjóflóðaleit en hundur með slíka gráðu telst fullþjálfaður leitarhundur. Skolli veiktist skyndilega og dó 20. mars síðastliðinn og hefur Auður hug á að kaupa annan hund af sama kyni.

Mikil vinna fylgir því að þjálfa leitarhund og peningaútlát vegna þjálfunar og námskeiðsferða og því sótti Auður um styrk til Ísafjarðarbæjar. Hún telur það mjög mikilvægt að á þessu svæði Vestfjarða sé til staðar góður leitarhundur, bæði að vetrar- og sumarlagi. Eins og áður sagði samþykkti bæjarráð Ísafjarðarbæjar styrkveitinguna og greiðist kostnaður hans af fjárveitingu til almannavarna.

Frétt tekin af www.bb.is