Sumarnámskeið nr. 4

Fjórða og síðasta sumarúttektar námskeið ársins var haldið um síðustu helgi á Geysi.

Mæting var eins og vanalega góð og var gist á gistiheimilinu á Geysi við mjög góðar aðstæður. Námskeiðið stóð í 3 daga og var teymum skipt niður á tvö svæði í blandaða hópa nýliða og lengra komna. Mikið er af nýliðum hjá sveitinni um þessar mundir og margir frambærilegir tilvonandi útkallshundar. Á námskeiðinu voru alls 6 teymi sem tóku próf og stóðust þau öll en þau voru:

Maurice og Stjarna A-endurmat.
Ragga og Jökull A-endurmat.
Susanne og Sámur A-endurmat.
Gunnar og Krummi B-Próf.
Bríet og Skutla C-próf.
Guðjón Smári og Tanja C-próf.

Auk þess útskrifaði sveitin tvo nýja leiðbeinendur en þau Maurice og Susanne hafa verið í leiðbeinendanámi síðustu tvö ár og lauk því um síðustu helgi með skriflegu og verklegu prófi sem þau stóðust með glans og óskum við þeim hjartanlega til hamingju með það. Seinnipartinn á laugardeginum var svo sveitarfundur og svo klukkan 9:30 um kvöldið voru útkallsteymi send út á kvöldæfingu. Sett var upp svæði með 7 „týndum“ og voru 8 teymi sem tóku þátt í leitinni sem gekk mjög vel og fundust allir „týndir“ heilir á húfi. Námskeiðinu var svo slitið seinnipart sunnudags með afhendingu viðurkenninga. Það sem er helst framundan hjá sveitinni núna er úttekt útkallsteyma á vegum Landsbjargar. Þar verða hundar og menn frá BHSÍ og Leitarhundum að þreyta 2 próf hvert teymi og ræður útkoman úr þessum prófum hvort teymin verða sett á útkallslista Landsbjargar. Úttektin fer fram helgina 22. – 23. október.