Útkall 12. september – Leit að gangnamanni við Skagaströnd

Þann 12. september barst Björgunarhundasveit Íslands útkall vegna gangnamanns sem var týndur í nágrenni Skagastrandar. Björgunarsveitir í nágrenninu höfðu verið við leit í nokkra klukkutíma þegar BHSÍ fékk boð kl. 19:19. Þá voru flestir félagar BHSÍ nýlagðir af stað af námskeiði sem haldið var á Gufuskálum yfir helgina.

7 hundateymi auk aðstoðarmanns lögðu af stað í útkallið. Teymin gerðu ráð fyrir að þurfa að leita í myrkri yfir nóttina og að notast við nýja leitarskipulagið sem æft hefur verið eftir sem byggist á notkun GPS tækis við að „hólfa“ niður leitarsvæðin fyrir hundateymin. Það var m.a. hlutverk aðstoðarmanns teymanna, að sjá um þá skipulagningu. Hundateymin voru rétt ókomin í stjórnstöð þegar maðurinn kom í leitirnar heill á húfi.

Teymi sem fóru af stað: Emil og Gríma, Guðbergur og Nói, Hlynur og Moli,  Hörður og Skvísa, Ingibjörg og Píla, Kristinn og Tása, Ólína og Skutull.
Aðstoðarmaður teyma var Björn Þorvaldsson.