Vatnaleitaræfing á Ísafirði

Í dag aðstoðuðu kafarar Björgunarfélags Ísafjarðar nokkra félaga úr sveitinni á Ísafirði við æfingu í vatnaleit. Æfingin var haldin á flotbryggjunni þar sem björgunarskipið Gunnar Friðriksson liggur við höfn. Þau sem mættu voru hundateymin: Jóna og Tinni, Hörður og Skvísa, Skúli og Patton, einnig Þröstur, Guðjón Flosa og Hermann.

Æfingin heppnaðist mjög vel en þetta var í fyrsta sinn sem þessi hundateymi æfðu vatnaleit. Byrjað var á því að Þröstur og Guðjón græjuðu sig upp í kafarabúningana. Þröstur skellti sér síðan í sjóinn og lék við hundana og fékk þá til að gelta. Síðan lengdum við æfinguna og Þröstur fór í kaf og kom upp þegar hundurinn gelti og gaf hundinum þá leik. Þegar hundurinn fór að skilja leikinn þá fór Þröstur lengra undir flotbryggjuna og lengra í burtu þannig að hundurinn þurfti að leita að honum og staðsetja. Þetta gekk alveg rosalega vel og var mjög skemmtilegt. Við eigum pottþétt eftir að halda þessum æfingum áfram og fljótlega ætlum við að prufa að nota slöngubátinn í stað flotbryggjunnar það verður spennandi verkefni að takast á við.

Næstu helgi er stefnt á að Auður og Skíma, Tóti og Jóka og Ólína og Skutull fái að æfa sig í vatnaleit.