Vilt ■˙ taka ■ßtt Ý starfi BHS═?

BHSÍ býður nýja félaga velkomna í hópinn með eða án hunds

Hvernig er best að byrja?

 

Átt þú hund og hefur áhuga á að starfa með Björgunarhundasveit Íslands? Hér fyrir neðan eru spurningar sem gætu vaknað og gott er að hafa í huga ef þú ert í þeim hugleiðingum.

 

,,Er ég tilbúin að vera björgunarmaður og starfa sem félagi í Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu?“

Ef þú ert tilbúin til þess eða ert nú þegar félagi í björgunarsveit þá er hálfur sigur unninn. Við leggjum mikla áherslu á þennan þátt þar sem þjálfun hundsins tekur að meðaltali 3 ár og lokamarkmiðið er að þið verðið að lokum teymi sem er tilbúið að leggja ykkar af mörkum við leit og björgun í þeim fjöldamörgu útköllum sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg sinnir.

Best er að kynna sér starf þeirra björgunarsveita sem eru í þínu nærumhverfi og óska eftir inngöngu hjá þeirri sveit sem hentar þér. Nýliðastarf sveitanna er mismunandi eftir áherslum þeirra en gott er að nýta sér þennan tíma vel til að auka við þekkingu þína og gera þig tilbúin til að starfa innan björgunarsveitanna.

Til þess að takast á við starfið þarf tilvonandi björgunarmaður að taka þátt í nýliðaþjálfun í björgunarsveit og ljúka ákveðnum námskeiðum burtséð frá þjálfun hundsins. Þetta tekur yfirleitt um eitt og hálft ár og er því nauðsynlegt að byrja á því sem fyrst eftir að þjálfun hunds hefst. Til að komast á útkallslista með leitarhund þarf hundaeigandinn að hafa lokið námskeiðum Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar til björgunarmanns 1. Dæmi um námskeið sem eru hluti af björgunarmanni 1:

  • Ferðamennska & rötun
  • Fyrsta hjálp 1
  • Fjallamennska 1
  • Fjarskipti 1
  • Leitartækni
  • Snjóflóð 1

Nánari upplýsingar um Slysavarnarfélagið Landsbjörg má finna á heimasíðu þeirra www.landsbjorg.is

 

,,Hef ég tíma til að sinna starfinu“

Að þjálfa leitarhund krefst mikils tíma. Æfingar eru vanalega a.m.k. einu sinni í viku, fjögur þriggja daga námskeið eru haldin í víðavangsleit yfir sumarið og eitt fimm daga námskeið að vetri auk tveggja æfingarhelga að vetri. Það er eins í þessu og svo mörgu öðru að æfinginn skapar meistarann og því meiri tíma sem þú hefur til að sinna þessari vinnu því tilbúnari verðið bæði þú og hundurinn þinn að sinna þessu mikilvæga hlutverki. Á námskeiðum gefst tími til ítarlegri þjálfunar en á almennum æfingum og á námskeiðum eru tekin próf. Best er að byrja með því að mæta nokkrum sinnum með hund á æfingar og koma svo á námskeið þegar ákvörðun um áframhaldandi þátttöku hefur verið tekin.

 

,,Getur hundurinn minn þetta?“

Flestum hundum er það eðlislægt að nota nefið á sér til að rannsaka heiminn. Flestir hundar hjá okkur eru ýmist af veiðihundategundum, fjárhundategundum eða blendingar af báðum þessum línum. Labrador, Border Collie og Schäfer eru algengastir í þessum störfum hérlendis.

Það sem skiptir mestu máli er að hundarnir hafi líkamsbyggingu, þrek og geðslag sem hentar. Hundarnir þurfa að geta ferðast hratt og örugglega í íslensku landslagi og hafa feldgerð til að takast á við íslenska veðráttu í sinni verstu mynd. Þeir þurfa að hafa ríkan vinnuvilja og vera áhugasamir um umhverfi sitt og annað fólk.

 

,,Hef ég það sem til þarf?“

Við eyðum miklum tíma utandyra í mismunandi veðri. Æfingar og námskeið eru mjög sjaldan felld niður vegna veðurs þar sem það er mjög mikilvægt að bæði fólk og hundar geti unnið við allar aðstæður, í öllum veðrum, hvenær sem er sólahringsins. Við hjálpumst að við að æfa hunda hvors annars og hundarnir verja yfirleitt miklum tíma inni í bíl, að bíða eftir að röðin komi að þeim í þjálfun.

Þú þarft ekki að eiga fullkominn útivistarbúnað til að starfa með okkur en það er okkur mikilvægt að félögum okkar líði vel í þessum aðstæðum. Klæddu þig alltaf eftir aðstæðum og vertu tilbúinn að þurfa að vera úti í rigningu, roki, snjókomu og hríð. Æfingarnar geta varað allt að 5 - 6 tímum og því er mikilvægt að huga að því að hafa með sér staðgóðan bita og jafnvel heitan drykk á brúsa.

Við æfum á stórum svæðum á sumrin, oft í fjalllendi og þú verður beðinn um að fela þig fyrir aðra hunda á því svæði. Á veturna gröfum við fólk niður í þar til gerðar snjóholur, oft á töluverðu dýpi, til að æfa hundana. Snjóflóðaæfingunum fylgir oft töluverður mokstur og undirbúningur.

Ef allir þessir þættir eiga við þig og þinn hund þá er næsta skref að hafa samband við okkur og mæta á æfingu. Ekki hika við að hafa samband ef þú hefur frekari spurningar. Við erum alltaf tilbúin að taka á móti góðu fólki og fleiri hundum. Þjálfunin er algerlega miðuð að hverju teymi fyrir sig og komum við til móts við fólk og hunda á þeim stað sem teymið er statt hverju sinni.

Tengiliður okkar fyrir nýliða er Björk Arnardóttir krummiogkjarkur@gmail.com, sími 861 9353.

 

Lesa meira:
Hvaða hunda er best að þjálfa? >>