Hlř­nireglur f/bj÷rgunarhunda


Reglur þjálfunar skiptast í þrjá flokka.

Flokkur C: Byrjendur
Flokkur B: Framhald
Flokkur A: Útkallshundar

Viðurkennt gengi í A flokki skráist á útkallslista BHSÍ.

Viðurkennt gengi í B flokki skráist á vinnulista/útkallslista BHSÍ.

Hlýðnipróf skal tekið fyrir eða samhliða C-prófi í víðavangs eða snjóflóðaleit. Standast þarf hlýðnipróf til að standast C- próf í fyrsta sinn með hvern hund. Teymi sem hefur verið með A hund og velur að fara beint í B próf skal standast hlýðnipróf til að fá viðurkennt B próf.

Æfing 1: Skapgerðarpróf (staðist / ekki staðist).

Viðbrögð hundsins gagnvart ókunnugum. Hundurinn hafður í ól. Staðgengill kemur eðlilega fram, síðan óvænt hljóð og hreyfingar. Framkoma hundsins skal vera eðlileg, ekki glefsa eða vera feiminn.

Hundurinn verður að standast skapgerðarpróf til að geta haldið áfram.

Æfing 2: Hælganga (10 stig)

Hundurinn á að vera í byrjunarstöðu og laus. Hundastjórnandi láti vita þegar hann er tilbúinn að byrja.

Dómari gefur leyfi til að byrja. Skipunarorð frá hundastjórnanda er aðeins leyft í byrjun æfingar. Í æfingunni á hundurinn að fylgja hundastjórnandanum með óskiptri athygli. Gengið er prófað í öllum snúningum og á mismunandi hraða.

Dómsreglur

Auka skipanir og merki þýða frádrátt. Öll frávik frá framanskráðu þýða frádrátt.

Æfing 3: Sækja – skila (30 stig)

Hundurinn sé í byrjunarstöðu og laus. Hundastjórnanda er afhentur einn hlutur. Stjórnandi kasti hlutnum ca. 15 metra. Við merki frá dómara gefur hundastjórnandi hundinum skipun um að sækja hlutinn og skal hundurinn sækja hlutinn og skila til hundastjórnanda fljótt og vel. Þessa æfingu skal endurtaka þrisvar sinnum.

Dómsreglur

Því hraðar og öruggar sem hluturinn er sóttur/skilað, því betra. Frádráttur er fyrir að tanna hlutinn.

Greinarmun verður að gera á að tanna og að laga hlutinn til í kjaftinum. Hundur sem eyðileggur hlutinn hlýtur ekki viðurkenningu í æfingunni. Öll frávik frá framanskráðu þýða frádrátt.

Æfing 4: Innkall á frjálsum hundi (40 stig)

Hundurinn sé í byrjunarstöðu. Að fengnu leyfi frá dómara er hundinum “gefið frí”. Dómari segir til þegar kalla á hundinn inn. Við innkall verður fjarlægðin að vera minnst 15 metrar. Ef hundurinn fer ekki 15 metra frá stjórnanda, getur hann gengið frá hundinum eða dómari kallað hundinn til sín. Í innkalli á hundurinn að bregðast fljótt og vel við og fara beint til stjórnanda án tafar og enda æfinguna í byrjunarstöðu.

Dómsreglur

Hundur sem skilur ekki skipun eða merki um að hann sé frjáls fær frádrátt. Kalli dómarinn á hundinn verður hann að gæta þess að áhrifin séu ekki það sterk að það hindri hundinn í að gegna innkalli eiganda fyrr en hann er búinn að athuga þann sem kallar. Í slíku tilfelli á merki um innkall að koma þegar hundurinn hefur rannsakað málið. Öll frávik frá framanskráðu þýða frádrátt.

Æfing 5: Liggja saman (30 stig)

Tími 10 mín. Hundastjórnandi í hvarfi.

Að beiðni dómara raða gengin sér upp í beina línu með u.þ.b. tveggja metra millibili. Krafan er að minnst þrír hundar taki þátt í æfingunni. Að beiðni dómara eru hundarnir látnir leggjast. Þegar dómarinn lætur vita, ganga hundastjórnendurnir í beinni línu burt og í hvarf. Þegar tíminn er liðinn ganga hundastjórnendur í beinni línu aftur fyrir hundana og standa þremur skrefum fyrir aftan þá. Með leyfi dómara ganga stjórnendur til hundanna og bíða eftir skipun frá dómara um að hundurinn megi setjast upp, þá er æfingunni lokið.

Dómsreglur

Hundurinn verður að liggja í minnst 5 mín. til að standast. Hreyfi hundurinn sig eftir 5 mín. getur hann staðist ef hann er kyrr á staðnum. Leyfilegt er að skríða lengd sína. Það og annar órói þýða frádrátt.

Fleiri frávik í viðbót þýða fall.

Gengi þarf lágmark 80 stig til að standast hlýðnipróf.

2. Almennar reglur

2.1. Almennar reglur sem gilda fyrir allar æfingar.

2.1.1. Ef hundi er refsað fyrir, á meðan eða eftir æfingu varðar það brottvísun frá prófi. Ástæða brottvísunar skráist á eyðublað hjá dómara. Hundurinn skal vera undir stjórn að og frá æfingasvæði. (í taumi).

2.2. Varðandi hlýðnipróf.

2.2.1. Hundur á að byrja hverja æfingu sitjandi við vinstra hné eigandans nema annað sé tekið fram við upphaf æfingar. Leyfilegt er að hafa hundinn við hægra hné óski hundastjórnandi þess.

2.2.2. Í æfingunni sækja/skila leyfist að hundurinn skili sitjandi eða standandi, fyrir framan eða við hlið hundastjórnanda.

Hundastjórnandi segir frá þessu áður en æfing hefst.

2.2.3. Standist gengið hlýðnipróf gildir það það sem eftir er þjálfunarinnar

3. Innritun – úttekt – próf.

3.1. Hlýðnipróf er hægt að taka á æfingum sveitarinnar, eða námskeiðum, eitt sér eða samhliða prófi í C-flokki.

3.2. Standist teymi hlýðnipróf gildir það fyrir áframhaldandi þjálfun og getur viðkomandi teymi þá staðist C-próf. Fall á prófi frestar afhendingu viðurkenningar fyrir C-próf þar til hlýðniprófið er staðist.

3.3. Hundateymi sem fellur á hlýðniprófi getur hvenær sem er farið fram á að prófið verði endurtekið.

3.4. Komi slík beiðni til stjórnar eða leiðbeinanda skal verða við henni á næstu æfingu sveitarinnar

3.5. Tveir leiðbeinendur dæma hlýðnipróf. Þó er heimilt að einn leiðbeinendi ásamt A-hundamanni dæmi prófið.

Yfirfarið og breytt í samræmi við fund fræðslunefndar 28.11.2011
Ingimundur Magnússon